29.2.2012

VAKINN

Nýtt gæða- og umhverfiskerfi

Merkur áfangi náðist í dag 28.febrúar 2012, í sögu íslenskrar ferðaþjónustu þegar gæða- og umhverfiskerfið VAKINN var tekið í notkun. Þróuð hafa verið gæðaviðmið fyrir allar greinar ferðaþjónustu en í fjölmörg ár hefur verið rætt um nauðsyn á slíku kerfi. Með VAKANUM fá ferðaþjónustuaðilar í hendur tæki sem getur verið þeim verkfæri og leiðsögn í átt til betri þjónustu og aukins öryggis.

Verkfæri ferðaþjónustuaðila
Markmiðið með VAKANUM er að efla gæði og öryggi í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og stuðningi, ásamt því byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja. Þannig er kerfið fyrst og fremst verkfæri til að aðstoða þátttakendur við að auka gæði og öryggi. Þetta er gert með hjálpargögnum og leiðsögn. Ferðaþjónustuaðilar eru ekki skyldugir að taka þátt í VAKANUM en styrkleikar kerfisins eiga einmitt að felast í því að kostir þess séu öllum augljósir.

Kerfið er tvískipt, þ.e. stjörnuflokkun fyrir gististaði og úttekt á ferðaþjónustu annarri en gistingu. Þá fylgir VAKANUM einnig umhverfiskerfi sem aðilar hafa val um að taka þátt í, en það kostar ekkert aukalega.

Víðtæk samstaða
VAKINN er afsprengi þróunarverkefnis sem iðnaðarráðuneytið fól Ferðamálastofu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands að vinna að haustið 2008. Verkefnið er unnið í náinni samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtök Íslands og þannig hefur skapast breið samstaða innan greinarinnar um þennan mikilvæga málaflokk. Þá hafa fjölmörg ferðaþjónustufyrirtæki lagt lóð sitt á vogarskálina í undirbúningsferlinu. Byggt er á kerfi frá Nýja-Sjálandi er kallast Qualmark og þykir hafa heppnast afar vel.

Því eru gæðin mikilvæg?
En af hverju eru gæða- og umhverfismál svona mikilvæg fyrir íslenska ferðaþjónustu og hvaða hag hafa ferðaþjónustufyrirtæki hafa af því að taka þátt? Nokkuð augljós ástæða er samkeppnissjónarmið, þ.e. Ísland á sem ferðamannaland í harðri samkeppni við mörg önnur lönd. Það er síður en svo sjálfgefið að ferðamenn leggi leið sýna hingað til lands því valkostirnir eru svo sannarlega margir. VAKINN er þannig markaðstæki, bæði fyrir Ísland sem áfangastað og hvert það fyrirtæki sem tekur þátt. En af hverju að tengja umhverfismál við gæðamálin? Kannanir meðal ferðamanna hafa árum saman fært okkur heim sanninn um að meginaðdráttarafl Íslands er hin stórfenglega náttúra. Hún er gulleggið okkar sem við þurfum því að varðveita og skila áfram ósködduðu til komandi kynslóða.

Einfalt og kostnaði stillt í hóf

Áhersla hefur verið lögð á að hafa kerfið eins einfalt og kostur er og sníða það þannig að það henti öllum. Þá hefur þátttökugjaldi einnig verið stillt í hóf, en það ræðst af umfangi rekstrar viðkomandi fyrirtækis.

Nánari upplýsingar gefur Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri,
olof@ferdamalastofa.is Sími: 535-5500.

Kynningarfundir VAKANS

Á næstu dögum verða haldnir kynningarfundir á VAKANUM víða um land:

2. mars  Ísafjörður 13-15:30    
5. mars  Akureyri 9-11:30
5. mars Varmahlíð 14-16:30
6. mars  Egilsstaðir 9-11:30  
7. mars  Höfn í Hornafirði 9-11:30
7 .mars  Kirkjub.klaustur 15-17:30
13. mars Stykkishólmur 14-16:30  
14. mars Selfoss 9-11:30
14. mars Reykjavík 14-16:30

Dagskrá kynningarfunda:


- Ávinningur af VAKANUM
- Umhverfiskerfi VAKANS
- Gerð öryggisáætlana
- Áhættumat í ferðaþjónustu
- Rekstur og stjórnun
- Stuðningur og fylgigögn VAKANS

Nánari upplýsingar um staðsetningu funda er á www.ferdamalastofa.is.

Senda grein

Hér getur þú tekið þátt!