Vinir Vatnajökuls

Vatnajökulsþjóðgarður opnar nýja gestastofu

Opnunarhátíð fyrir boðsgesti verður haldin á Skriðuklaustri 24. júní næstkomandi. Eftir það mun Vatnajökulsþjóðgarður reka þrjár gestastofur: Skaftafellsstofu í Skaftafelli, Gljúfrastofu í  Ásbyrgi og Snæfellsstofu á Skriðuklaustri. Snæfellsstofa er fyrsta vistvænt vottaða bygging á Íslandi, hún er byggð samkvæmt umhverfisstaðli sem kallast BREEAM (Building Research Establish-ment Environmental Assessment Method). Um er að ræða breskan staðal sem ætlað er að greina og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum bygginga allt frá hönnun þeirra og byggingu til rekstrar. Aðferðin byggir á einkunnagjöf sem er gegnsæ, auðvelt að skilja og grundvallast á niðurstöðum rannsókna. Til að bygging fái BREEAM vottun þarf að hún meðal annars að standast ákveðnar kröfur um lága orkunotkun, mikla endingu byggingarefna, lága viðhaldsþörf og lágt hlutfall óheilnæmra byggingarefna. Leitast var við að nota byggingarefni úr nánasta umhverfi hússins við byggingu þess og segja hönnuðir form byggingarinnar innblásið af eilífum sköpunarmætti jökulsins. Snæfellsstofa mun hýsa upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, minjagripaverslun, skrifstofur starfsfólks þjóðgarðsins og sýninguna, Veraldarhjólið. Veraldarhjólið fjallar um hringrás og mótun náttúrunnar og leggur áherslu á samspil gróðurfars og dýralífs á austursvæði þjóðgarðsins. Hringrásin birtist í ýmsum myndum á sýningunni, í vatnafarshring, árstíðaskiptum og hringrás lífs og dauða. Hún birtist einnig í vatnshjólinu sem minnir á hringiðu mannlífs í tímans rás. Vinir Vatnajökuls óska Vatnajökulsþjóðgarði og landsmönnum öllum til hamingju með nýja, glæsilega, gestastofu á Skriðuklaustri – Snæfellsstofu.

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.