Vinir Vatnajökuls

Sögur

Margar áhugaverðar sögur, úr fortíð og nútíð, hafa verið skrifaðar um ferðalög og upplifun fólks af því að ferðast um það landsvæði sem þjóðgarðurinn nær yfir.

Rík hefð er fyrir þjóðsögum á Íslandi og þær hafa flestar borist á milli  kynslóða í munnlegu formi. Sumar þeirra hafa töluvert sögulegt gildi um ýmsar persónur og staðarhætti og gaman er að sjá sjá landsfræga drauga koma fyrir í hinum og þessum sögum á borð við Eyjasels-Móra og Þorgeirsbola, þó Vinirnir hengi sig ekki upp á að allar séu sögurnar dagsannar.

Hér birtum við úrval af þjóðsögum, draugasögum, skrímslasögum, útilegumannasögum og ferðasögum úr samtímanum.

Ef þú hefur upplifað eitthvað á ferðum þínum í þjóðgarðinn sem þú telur að aðrir hefðu gagn eða gaman af að lesa um þá máttu endilega senda okkur frásögn þína með tölvupósti á netfangið: vinir@vinirvatnajökuls.is. Mundu að skemmtilegar myndir gera góða sögu betri :-)

 

Ferðasögur

Margir Íslendingar hafa lagt leið sína á Hvannadalshnúk og lýsa oft mjög sterkri upplifun. Vilhjálmur Ari Arason heimilislæknir skrifaði skemmtilega ferðasögu á bloggið sitt um göngu sína á Hvannadalshnúk.

Útilegumannasögur

Sögur af útlögum í fornsögunum minna oft á útlagana í villta vestrinu en á Íslandi eru þeir ansi áberandi í bókmenntunum,  á leiksviðinu og í fornsögunum. Þrjár Íslendingasagna  hafa útlaga sem aðalpersónu og þar þekkja flestir Gretti hinn sterka. Eftir móðuharðindin 1783 fór útlögum að fækka en það ár dó einmitt einn sá þekktasti  þeirra, Fjalla-Eyvindur. Ódáðahraun í Vatnajökulsþjóðgarði var einn þekktasti dvalarstaður útilegumanna enda leituðu þeir  yfirleitt skjóls í fáförnum óbyggðum eins og  á miðhálendinu.

Draugasögur

Fjölmargir draugar hafa haldið til í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs í aldanna rás og gera ef til vill enn. Má þar nefna landsþekkta drauga á borð við Eyjasels-Móra í Jökulsárhlíð og Þorgeirsbola úr Norður-Þingeyjarsýslu. Finna má margar góðar draugasögur af Austurlandi í bókinni Austfirskar draugasögur sem gefin er út af Gunnarsstofnun, og hér fylgir ein saga af Eyjasels-Móra úr bókinni.

Skrímslasögur

Margir ormar og skrímsli eiga að dvelja í ám og vötnum víðsvegar um landið og telja sumir að uppruna sagnanna megi rekja til brekkusnigilsins. Um þann orm er sagt að nái maður með fingrinum í horn það sem stendur framúr miðjum höfði hans, komi allt það fram sem maður óskar sér áð meðan haldið er í hornið. Sumir segja að leggi maður gull undir brekkusnigilinn, vaxi bæði ormurinn og gullið. Þurfi því að hafa gát á svo hægt sé aðkoma sniglinum fyrir kattarnef áður en hann verður og stór og illur viðureignar. Svo elskur er ormurinn að gullinu, að hann lætur frekar lífið en að gefa það eftir og þaðan er runnið orðatiltækið að lúra eins og ormur á gulli. Ef slíkur ormur er látinn halda lífi endar það yfirleitt með  því að honum er varpað í vatnsfall þar sem hann vex og dafnar upp frá því, og þannig verða skrímsli á borð við Lagarfljótsorminn til.

Eitt frægasta skrímsli Íslands, Lagarfljótsormurinn heldur til í Lagarfljóti í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs. Finna má margar góðar skrímslasögur af Austurlandi í bókinni Austfirskar skrímslasögur sem gefin er út af Gunnarsstofnun, og hér fylgja tvær sögur úr bókinni af austfirskum skrímslum.

 

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.