Vinir Vatnajökuls

Hægelduð andalæri úr Réttum úr Ríki Vatnajökuls

Reynir á Hlíðarbergi er með eina aliandabúið á Íslandi. Hann byrjaði að rækta öndina árið 2004 og er ársframleiðsla 25-35 tonn á ári. Ásamt því að selja ferska önd eru á boðstólnum reyktar andabringur sem eru sérlega góðar. Öndin frá Hlíðarbergi er frábært hráefni, mikið betri en sú erlenda sem Íslendingar hafa verið að flytja inn. Einnig framleiðir Reynir andafitu sem er mjög góð til að steikja upp úr. Ég nota bæði önd og andarfitu í þennan rétt.

Önd:

 • 8 andarlæri
 • 1 búnt timjan
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 1 krukka andarfita
 • Salt
 • Pipar

Perur:

 • 2 perur
 • 50 g smjör
 • 50 g sykur
 • 1/2 balsam edik
 • 4 negulnaglar

Hitið ofninn í 150°. Andalærin eru þvegin og þerruð og öll aukafita er skorin frá og geymd. Andafitan er brædd í potti, en ef ekki var hægt að útvega fitu er í lagi að nota 300 g af smjöri. Lærin eru söltuð og pipruð ríkulega og sett í eldfast mót ásamt timjani, fínt skornum hvítlauknum og fitu afskurðinum. Hellið svo bræddri fitunni yfir andalærin og setjið álpappír þétt yfir. Bakið í 3 1/2 til 4 klst við 150° hita. Þegar bökun er lokið eru andalærin veidd varlega uppúr á bökunarplötu og látin kólna örlítið. Kryddið lærin með salti og pipar. Hitið ofninn í 220° og bakið þar til að skinnið verður stökkt. Gott er að sigta fituna sem öndin var elduð í og setja í skál og geyma til síðari notkunar.

Perur:

Skerið perurnar í báta og hreinsið fræin frá. Bræðið saman sykurinn og smjörið ásamt negulnöglum. Þegar smjörið er við það að taka lit er balsam edikinu og perunum bætt út á og látið malla við vægan hita í 10-15 mínútur.

Berið öndina fram með perunum, sætum kartöflum og góðri sósu.

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.