Vinir Vatnajökuls

Leiðbeiningar

1. Hvað styrkja samtökin? +

VINIR VATNAJÖKULS eru hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðs. Hlutverk samtakanna er að afla fjár til að styrkja  rannsóknir, kynningar- og fræðslustarf sem stuðlar að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.

 Vinirnir vilja setja í forgang verkefni sem stuðla að:

  • Aukinni þekkingu almennings á náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs
  • Samspili byggðarlaga innan þjóðgarðsins
  • Aukinni fræðslu og rannsóknum í Vatnajökulsþjóðgarði og grenndarsamfélagi hans
  • Samspili útivistar, menningar og Vatnajökulsþjóðgarðs
  • Tengslum barna og unglinga við náttúruna
  • Auknum skilningi umheimsins á mikilvægi Vatnajökulsþjóðgarðs og einstakri náttúru hans á heimsvísu
  • Eflingu samkenndar um mikilvægi Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir nærliggjandi byggðir og alla landsmenn
  • Sjálfbærri ferðaþjónustu

2. Hvað styrkja samtökin ekki? +

  • Almennan rekstrarkostnað stofnana, félaga eða fyrirtækja

  • Einstaklinga vegna greiðslu skólagjalda, námsdvala eða skólaferðalaga

3. Hverjir geta sótt um styrk? +

Einstaklingar, samtök/tengslanet og bæði einkareknar og opinberar stofnanir, geta sótt um styrki. Umsækjendur mega búa hvort heldur er innan eða utan Íslands.

Þegar fleiri en einn aðili standa að verkefni, er það umsjónaraðili verkefnisins sem sækir um styrkinn, ekki einstakir aðilar að verkefninu.

4. Veitir sjóðurinn styrki til verkefna sem unnin eru reglulega? +

VINIR VATNAJÖKULS styrkja fyrst og fremst einstök verkefni. Þ.e. verkefni sem ekki eru endurtekin reglulega eða hafa verið unnin áður. Ef um endurtekin verkefni er að ræða t.d. árlega viðburði mun úthlutunarnefnd meta í hverju tilfelli hvort styrkja eigi verkefnið.

5. Hvenær og hvernig er sótt um? +

Umsækjendur fylla út rafrænt umsóknareyðublað á vefsíðu samtakanna. Umsókn skulu fylgja gögn með greinagóðri lýsingu á verkefninu og rökstuðningur á því hvernig það uppfyllir markmið Vina Vatnajökul. Jafnframt skal fylgja umsókn, verk- og kostnaðaráætlun, sem og tilskilin leyfi þegar við á. Ef um er að ræða framkvæmdir sem unnar eru á landi innan þjóðgarðsins eða ef verkefnið er sýnilegt í náttúru þjóðgarðsins er styrkþega skylt að tryggja samráð við þjóðgarðsvörð viðkomandi svæðis og sýna fram á skriflegt leyfi hans og /eða framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs. Umsækjendur geta látið öll gögn og upplýsingar sem þeir telja að séu umsókn sinni til framdráttar, fylgja. Ef mikilvægar upplýsingar vantar þá verður umsókninni hafnað, án þess að gefa umsækjendum kost á að senda inn leiðréttingar eftir að umsóknarfrestur er liðinn. Það verður ekki gefinn kostur á því að verkefnisstjórar geti mætt fyrir stjórn eða fagráð til að útskýra verkefnið nánar.
Umsóknin verður eingöngu metin á grundvelli þeirra gagna sem eru afhent.

Stjórn Vina Vatnajökuls auglýsir eftir umsóknum um styrki í dagblöðum og á vefsíðu samtakanna. Að jafnaði skal úthlutað úr sjóðnum einu sinni á ári. Stjórn Vina Vatnajökul getur ákveðið hverju sinni í auglýsingu, hvers konar verkefni hljóti styrki.

6. Er hægt að sækja um styrk til sama verkefnis oftar en einu sinni? +

Hafi verkefni fengið synjun um styrk frá samtökunum, stendur umsækjendum til boða að sækja aftur um styrk fyrir umrætt verkefni. Einungis má sækja tvisvar um styrk fyrir sama verkefnið. Ákvörðun stjórnar um styrkveitingu er ekki hægt að kæra, né verður henni breytt.

7. Hvernig eru styrkir veittir? +

Styrkir eru greiddir út í tveimur áföngum. Helmingur upphæðar eftir að samningur um styrk hefur verið undirritaður og helmingur þegar styrkþegi skilar lokaskýrslu til samtakanna. Ef um háa styrki er að ræða geta samtökin tekið ákvörðun um að fjölgað áfangagreiðslum.

8. Hver eru fjárhagsleg skilyrði? +

Eigin fjárfesting

Samtökin styrkja verkefni fyrst og fremst að hluta og því eru styrkir almennt ekki hærri en 50% af heildarkostnaði verkefnis. Öll verkefni verða því að útvega fjármagn eftir öðrum fjármögnunarleiðum eða leggja til eigið fé. Meta má vinnuframlag til fjár að því marki sem samtökin telja raunhæft til þess að hægt sé að vinna verkefnið. Umsókn skal innihalda útreikninga á eigin vinnuframlagi í meðfylgjandi fjárhagsáætlun.

Stjórn og/eða framkvæmdastjóri Vina Vatnajökuls hefur eftirlit með því, að styrkur sé notaður samkvæmt upplýsingum í umsókn. Styrkþega er skylt að kynna framkvæmdastjóra stöðu verksins, sé þess óskað og afhenda umbeðin gögn samtökunum að kostnaðarlausu.

9. Hver er tímarammi á framkvæmd verkefnis? +

Verkefnið skal framkvæma innan tólf mánaða frá því að styrkveiting er samþykkt. Möguleiki er að sækja um verkefni til tuttugu og fjögurra mánaða, ef slíkt verkefni er samþykkt þá þarf styrkþegi að skila inn skýrslu eftir fyrstu  12 mánuðina og sækja um fyrir seinna 12 mánuðina við næstu úthlutun  Ef skilyrði um tímaramma verkefnis eru ekki uppfyllt getur stjórn samtakanna endurkallað styrk.  Hægt er að sækja um frest á verklokum til skrifstofu samtakanna. Umsókn þar að lútandi þarf að vera skrifleg og rökstudd. Stjórnin og/eða framkvæmdastjóri getur óskað eftir áfangaskýrslum, ef þurfa þykir. Hægt er að svipta umsækjanda styrk, telji stjórnin, að verkið sé ekki unnið í samræmi við umsókn og innsend gögn. 

10. Birting +

Upplýsingar um umsækjendur, veitta styrki og lokaskýrslur eru opinber gögn. Þau má birta á vefsíðu samtakanna sem og annarsstaðar. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að birta merki (lógó) Vina Vatnajökuls á öllu efni sem samtökin styrkja. Reglur um meðferð merkis Vinanna má sjá hér á vefsíðu samtakanna undir „Merki Vina Vatnajökuls“. Vina Vatnajökuls skal getið í allri umfjöllun um þau verkefni sem Vinirnir styrkja. Styrkþegi sem ákveður að þiggja styrk samtakanna skal gerast Vinur Vatnajökuls.

11. Samningur um styrkveitingu +

Þegar styrkur er veittur skrifa fulltrúi Vina Vatnajökuls og styrkþegi undir samning sem kveður á um gagnkvæmar skyldur styrkþega og samtakanna í samræmi við ofangreindar reglur.

12. Fagráð +

 Umsóknir eru metnar af Fagráði Vina Vatnajökuls. Fagráðið skipa hópur sérfræðinga á þeim sviðum sem styrkt eru.

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.