Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2010-009
Fjárhæð 341.000
Umsækjandi Svavar Jónatansson
Stjórnandi Svavar Jónatansson
Lengd verkefnis 1 ár
Vefsíða verkefnis Sjá hér
Viðhengi Inland outland skýrsla 2011.pdf
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Þann 4. júní 2011, opnar í Skaftafellstofu ljósmyndasýning sem sýnir landslag Vatnajökulsþjóðgarðs á óvenjulegan hátt. Frá árinu 2007 hefur Svavar Jónatansson ferðast með vöru- og fólksflutningabifreiðum hringinn um landið og myndað landslagið út um hliðarrúðuna. Þannig opnar hann dyrnar að hreyfanlegri skynjun á landslag stórbrotinna jökla og umlykjandi fjalla. Sýningin, sem er samstarfsverkefni Innland/Útland og Vatnajökulsþjóðgarðs, samanstendur af myndbandsverki sem unnið úr rúmlega 200.000 ljósmyndum verksins Innland/Útland ásamt stækkuðum ljósmyndum frá svæðinu. Undir hljómar frumsamin tónlist Daníels Ágústs Haraldssonar. Sýningin er styrkt af Vinum Vatnajökuls og er hún öllum opin. 

Niðurstöður

Sýningin Innland-Vatnajökull var opnuð í gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli laugardaginn 4. júní 2011. Henni lauk formlega í september sama ár. Undirbúningur hafði staðið frá því um miðjan vetur 2010/2011 og fólst í gerð myndbandsverks og vinnslu ljósmynda til stækkana ásamt gerð tónlistar. Sömuleiðis var farin ferð í Skaftafell um miðjan mars 2011 til að hefja undirbúning sýningar varðandi staðsetningu ljósmynda og tæknilegar útfærslur myndbandsins.

Sýningin samanstóð af 6 stórum römmum sem hver um sig innihélt tvær ljósmyndir teknar af sama stað en á mismunandi tímum og voru merktar með sérútbúnum stimpli með útlínum Vatnajökuls þar sem rauður punktur gaf til kynna staðsetningu ljósmyndar. Hver rammi er 102cm x 47 cm en sýningin náði yfir tvo veggi í gestastofunni. Sérstaklega var hugað að lýsingu mynda þar sem birtan innandyra er það mikil og dreifð að nauðsyn var að draga fram myndirnar á veggjunum með viðbótarlýsingu.

Hannað var sérstakt plakat (50x50 cm) sem tilgreindi heiti sýningar og aðila sem komu að sýningu (Vinir Vatnajökuls og Vatnajökulsþjóðgarður). Við hlið skiltisins hékk mappa með grein um verkið, texta og fleiri upplýsingum og virtist stór hluti áhugasamra gesta líta í þessa möppu og lesa.

Myndbandsverkið var spilað til skiptis við eldgosamyndband frá 1996 en verkið er 12 mínútur að lengd og sýnir landslag Vatnajökuls séð á þúsundum stakra ljósmynda sem teknar voru út um hliðarrúður vöru- og fólksflutningabifreiða á öllum árstíðum.

Daníel Ágúst Haraldsson samdi tónlist með verkinu og hann fékk hljóðfæraleikarana Davíð Þór Jónsson og Matta Kallio í lið með sér við flutning hennar.

 

Staðsetning á korti

Kortasíða

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.