Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2010-015
Fjárhæð 3.409.000
Umsækjandi Guðrún Gísladóttir
Stjórnandi Guðrún Gísladóttir
Lengd verkefnis 2 ár
Viðhengi Framvinduskýrsla 2011_Guðrún Gísladóttir.pdf Grein um verkefnið Geomorphology.pdf Grein um verkefnið CATENA.pdf
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Fátt hefur mótað landslag og búsetuskilyrði sunnan Vatnajökuls meira en skriðjöklar, jökulár og eldvirkni og hið stórbrotna umhverfi dregur til sín fjölda ferðamanna ár hvert. Ekki er vitað hvernig jarðvegur og gróður þróaðist eftir að jöklar ísaldar hörfuðu á svæðinu og fram til dagsins í dag. Markmiðið er að rannsaka þróun gróðurs og jarðvegs síðustu árþúsundin í Skaftafelli og Öræfum og að meta áhrif loftslagsbreytinga, gjóskufalls og mannvistar þar á. Sérstök áhersla verður lögð á að rannsaka lang- og skammtímaáhrif Öræfajökulsgossins 1362 á landvistkerfi og búsetuskilyrði. Rannsóknir verða gerðar á tímasettum jarðvegskjörnum þar sem greiningar verða gerðar á frjókornum, gróum háplantna og sveppagróum, sem og efna- og eðliseiginleikum jarðvegs. Ýmis vísbendingagögn, t.d. niðurstöður frá fornleifarannsóknum og ritheimildir, verða nýtt til að túlka þær breytingar sem gögnin sýna. Rannsókninni er ætlað að stuðla að aukinni þekkingu á náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs og nýtast íbúum svæðisins sem og ferðamönnum.

 

Niðurstöður

Af gögnunum má ráða að Öræfajökulsgosið 1362 eyddi nánast öllum gróðri og jarðvegi í Öræfum. Þar sem jarðvegur hefur þó varðveist er ljóst að mikið áfok og uppblástur fylgdi í kjölfar gossins sem hefur rýrt landgæði enn frekar og skert búsetuskilyrði.

Land var því afar illa farið þegar gaus öðru sinni í Öræfajökli 1727 en því gosi fylgdi mikið jökulhlaup. Athyglisvert er að nánast engin ummerki eru um þroskaðan jarðveg á svæðinu eftir þetta gos, enda veðurfar óhagstætt á Litlu Ísöldinni. Jöklar náðu hámarksútbreiðslu 1890 og flæmdust jökulár óbeislaðar yfir svæðið sem gerði jarðvegsmyndun og gróðurframvindu erfiða. Þá er líklegt að áhrifa landnýtingar hafi verið nokkur á svæðinu þar sem íbúar reyndu að lifa af illa förnu landi með bústofn sinn.

Eftir að loftslag tók að hlýna eftir lok Litlu Ísaldar losnaði land undan jökli. Niðurstöður jarðvegsmælinga framan við Skaftafellsjökul á landi sem losnaði undan jökli 1890, 1945 og 2002, benda til þess að yngsta landið er mjög snautt lífrænum efnum en jarðvegur sem er 65 ára er farinn að byggja uppnæringarefnaforða, sem eykst svo nokkuð í jarðvegi sem er 120 ára. Hliðstæðar breytingar má sjá í gróðurframvindu. Í ljósi hlýnandi loftslags má búast við að gróður og jarðvegur byggist smátt og smátt upp á svæðinu komi ekki til náttúrhamfara af svipuðum skala og árið 1362 og 1727.

 

Staðsetning á korti

Kortasíða

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.