Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2010-016
Fjárhæð 1.800.000
Umsækjandi Fræðasetur Háskóla Íslands á Hornafirði
Stjórnandi Þorvarður Árnason
Lengd verkefnis 1 ár
Viðhengi Lokaskýrsla.pdf
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Þróun vetrarferðaþjónustu í Vatnajökulsþjóðgarði er krefjandi verkefni og huga þarf vel að fyrstu skrefunum á þeirri braut. Traustan grunn má leggja með rannsóknum á þessu sviði. Þar er helst horft til rannsókna sem gætu varpað ljósi á óskir ferðamanna sem heimsækja landið yfir vetrartímann og hugmyndir almennra ferðamanna um íslenskan vetur. Með heilsársopnun gestastofu í Skaftafelli er auðveldara að ná til ferðamanna yfir vetrartímann sem leggja má spurningakannanir fyrir. Viðtöl hafa þegar verið tekin við ferðamenn sem heimsóttu Vatnajökulsþjóðgarð og grannbyggðir hans en það var gert sumarið 2010. Fyrstu niðurstöður úr viðtölunum leiða í ljós áhuga ferðamanna á fjölbreyttri vetrarafþreyingu á Íslandi og er aðdráttarafl Vatnajökuls þar áberandi. Ferðamenn nefndu gönguferðir á jökulinn sem og almenna náttúruskoðun gjarnan sem ástæðu mögulegrar Íslandsferðar að vetri til.  
Mikið má læra af því sem unnið er í nágrannalöndum okkar og því er vert að afla upplýsinga um vetrarstarf þjóðgarða á öðrum Norðurlöndum, sem og á Bretlandseyjum, í Kanada og ínorðurhluta Bandaríkjanna. Samanburðarrannsókn þar sem aðstæður og tækifæri í Vatnajökulsþjóðgarði eru borin saman við aðra þjóðgarða er því ein af þeim rannsóknum sem lögð er áhersla á að vinna áður en lengra er haldið með þróun vetrarferðaþjónustu.

Efling vetrarferðaþjónustu samræmist vel hlutverkum þjóðgarðsins varðandi náttúruvernd og eflingu byggðar. Mikil árstíðasveifla er í ferðaþjónustu en með jafnari dreifingu ferðamanna yfir árið má draga úr álagi á náttúru og veita aðgang og fræðslu um þætti sem eru ekki fyrir hendi yfir hásumarið. Vatnajökulsþjóðgarður er kjörinn vettvangur fyrir fræðslu, meðal annars um jökla og umhverfi þeirra, landslag, lífríki og áhrif hlýnandi loftslags. Vatnajökull hefur sína sérstöðu á hverjum árstíma og þykir einstaklega fallegur og aðgengilegur stóran hluta vetrar. Hreindýr eru algeng á vissum svæðum Vatnajökulsþjóðgarðs að vetri en sumri. Aukin umsvif ferðaþjónustunnar að vetri til skapa grundvöll fyrir fleiri heilsársstörf, bæði innan þjóðgarðsins og hjá fyrirtækjum í nágrenni hans. Þannig fæst betri nýting innviða og tækifæri til að bjóða upp á fjölbreyttari afþreyingu. Menning og listir í tengslum við þjóðgarðinn gætu eflst við vaxandi fjölda ferðamanna utan háannar. Blómlegt mannlíf er líklegt til að vekja áhuga fólks á að heimsækja svæðið.

Ljóst er að fjöldinn allur að ónýttum tækifærum liggur í íslenska vetrinum og vert er að kanna hvernig vinna megi með þau á sem árangursríkastan hátt þannig að hagur náttúrunnar og byggðarinnar í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs sé sem best tryggður.

Í þessu verkefni verður sjónum fyrst og fremst beint að þróunarmöguleikum ferðaþjónustu á syðri helmingi þjóðgarðsins, þ.e. á vestur- og suðursvæðum hans, en ætlunin er að huga með sama hætti að norður- og austursvæðunum á næsta ári. Vegna meiri nálægðar við þéttbýlið og alþjóðaflugvöllinn á suðvesturhorni landsins, sem og nokkuð góðs og öruggs aðgengis allt árið um kring, bjóða vestur- og suðursvæðið sennilega upp á fleiri tækifæri til þróunar vetarferðaþjónustu en hin svæðin og því var talið eðlilegt að byrja á að kanna möguleikana á þeim svæðum, þótt augljóslega þurfi að horfa á þjóðgarðinn sem eina samhangandi og samverkandi heild í þessu sambandi sem öðrum. Verkefnið krefst einnig mikillar samvinnu við fjölmarga ólíka aðila og því var talið betra að hefja vinnu vegna þess á grundvelli þess tengslanets sem fræðasetrið er aðili að á suður- og suðausturlandi.

Verk- og tímaáætlun:
 
Helstu verkþættirnir eru fjórir: (A) úttekt á núverandi möguleikum til útivistar í þjóðgarðinum að vetrarlagi, sem og áhugaverðum nýjum útivistarmöguleikum, byggt á viðtölum m.a. við þjóðgarðsstarfsmenn og ferðaþjónustuaðila; (B) hönnun, fyrirlögn og úrvinnsla á stuttum megindlegum spurningalista sem byggður verður á niðurstöðum viðtalsrannsóknarinnar s.l. sumar og lagður fyrir ferðamenn sem leið eiga um þjóðgarðinn og grannbyggðir hans á komandi vetri; (C) heimildakönnun og samanburðarrannsókn á „fyrirmyndarstarfsemi“ (e. best practice) í vetrarferðaþjónustu í helstu nágrannalöndum okkar, s.s. Finnlandi, Noregi og Skotlandi, og myndum tengslanets við áhugaverða samstarfsaðila í umræddum löndum, s.s. í Rovaniemi í Lapplandi; og (D) frágangur skýrslu um niðurstöður verkefnisins.

Gert er ráð fyrir að vinna við þrjá fyrstu verkþættina hefjist um leið og niðurstaða um styrkveitingu liggur fyrir. Verkþáttur A mun standa yfir í u.þ.b. tvo mánuði, verkþáttur B í sex-átta mánuði og verkþáttur C í fjóra mánuði. Verkþáttur D verður að stærstum hluta unninn undir lok starfstímabilsins og er reiknað með vinna við hann taki u.þ.b. tvo mánuði. Í heild er gert ráð fyrir að verkefni krefjist u.þ.b. sjö mannmánaða vinnu, þar af fimm mannmánuðum hjá rannsóknarmönnum en tveimur mannmánuðum hjá verkefnisstjóra.

Gert er ráð fyrir að verkefninu verði lokið eigi síðar en í júlí-ágúst 2011.

 

Niðurstöður

Upphaf þessa verkefnis má rekja til þriggja umsókna sem sendar voru til Vaxtarsamnings Suðurlands vorið 2010. Tvær þeirra voru á vegum ferðaþjónustuklasanna í Skaftafellssýslunum tveimur, þ.e. Friðar og frumkrafta í Skaftárhreppi og Ríkis Vatnajökuls á Hornafirði, en sú þriðja á vegum Rannsóknasetursins á Hornafirði.1 Þessar umsóknir áttu það sameiginlegt að vilja allir stuðla að rannsóknatengdri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu. Þegar niðurstöður lágu fyrir um styrkveitingu
blasti við val á milli þess að gera þrjár litlar og mjög afmarkaðar rannsóknir eða að samnýta þá fjármuni sem tiltækir væru til rannsókna í öllum verkefnunum þremur og gera eina viðameiri rannsókn sem myndi gagnast öllum umsækjendum.
Meginmarkmið beggja klasaverkefna var efling ferðaþjónustu á heilsárs grundvelli innan starfssvæða þeirra og því þótti einboðið að tilgangur endurskipulagðar og sameiginlegrar rannsóknar yrði að afla upplýsinga sem gætu nýst klösunum til þess að ná því markmiði, hvor út frá sínum forsendum. Ákveðið var að byggja á svipaðri nálgun og lýst hafði verið í umsókn Friðar og frumkrafta, það er: [...] gera markaðsrannsókn nú í sumar sem mun nýtast til að skilgreina markhópa og ákveða hvernig vetrarferðir verða þróaðar. Ítarlegur spurningalisti verður lagður fyrir á bilinu júlí - ágúst í helstu upplýsingamiðstöðvum á Suðurlandi ásamt því að liggja frammi hjá ferðaþjónustuaðilum í Skaftárhreppi. [...] Rannsóknin verður að öllum líkindum hluti af stærri rannsókn sem Háskólasetrið hyggst gera og mun verða unnin árið 2011. Mikilvægt er að hafa í huga að sambærileg rannsókn hafði ekki áður verið gerð á Íslandi, hvorki meðal innlendra né erlendra ferðamanna, og því engar skýrar fyrirmyndir við að styðjast. Sjá framhald í meðfylgjandi skýrslu...
 

Staðsetning á korti

Kortasíða

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.