Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2010-013
Fjárhæð 120.000
Umsækjandi Hanna Björg Guðmundsdóttir
Stjórnandi Guðrún Gísladóttir
Lengd verkefnis 1 ár
Vefsíða verkefnis Sjá hér
Viðhengi Lokaskýrsla Stafafura í Staðarfjalli í Suðursveit.pdf
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Markmið þessarar rannsóknar var að kanna útbreiðslu sjálfsáinnar stafafuru (Pinus contorta) við rætur Staðarfjalls í Suðursveit. Gróðursetning í Staðarfjalli hófst árið 1954 í afgirtri skógrækt en fyrstu stafafurunum var plantað fimm árum síðar. Árið 1985 fundust fyrstu sjálfsánu stafafuruplönturnar vestan við skógræktina og síðan þá hefur stafafuran dreift sér allt í kringum skógræktarlundinn. Einkum var reynt að svara því hve stórt það svæði er sem sjálfsánar stafafuruplöntur í Staðarfjalli hafa dreift sér á frá árinu 1985 og hver ystu mörk útbreiðslunnar eru. Einnig á hvers konar landi þær vaxa, hver þéttleiki og hæð stafafuruplantna á láglendinu sunnan og vestan við skógræktargirðinguna er og hvort þéttleiki þeirra og hæð breytist með fjarlægð frá fræuppsprettu.

 

 

 

Niðurstöður

Gróðurþekja var metin út frá Braun Blanquet skalanum en rammar og hæðarmældar stafafurur staðsettar með GPS-tæki. Kort sem sýna m.a. þéttleika og útbreiðslu stafafuru voru unnin í kortaforritinu ArcMap og gröf og töflur sett upp í Excel.Niðurstöður mælinga sýna að útbreiðslusvæði stafafurunnar hefur aukist úr 2,3 ha í 19,7 ha og hún nær lengst 335 m frá skógræktinni. Á 26 árum hafa því sjálfsánar stafafuruplöntur dreift sér á 17,4 ha lands. Stafafuran vex á vel grónu landi en einnig á tiltölulega gróðurrýru landi þar sem lyng og mosi eru ríkjandi gróður. Heildargróðurþekja er mest 94% norðan við skógræktina á svæði sem einkennist af birkikjarri og grösum. Minnst er þekjan 54% sunnan við skógræktina þar sem mosi og lyng mynda meirihluta þekjunnar. Meðalhæð sjálfsáinna plantna er mest um 2 m, vestan við upprunalega skógræktarreitinn en minnkar svo eftir því sem austar dregur. Heildarþéttleiki sjálfsáinna stafafuruplantna er um 940 plöntur/ha og þær vaxa þéttar nær girðingunni en í meiri fjarlægð frá henni. Skógræktarsvæðið er því aðal fræuppsprettan sem bendir til þess að útbreiðslan sé enn á byrjunarstigi. Köngulberandi plöntur, sem mynda nýja upptakabletti, má finna í allt að 220 m fjarlægð frá skógræktargirðingunni og gætu aukið útbreiðsluhraða stafafurunnar á komandi árum.

Hægt er að nálgast lokaskýrslu hér.

Staðsetning á korti

Kortasíða

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.