Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2010-017
Fjárhæð 5.000.000
Umsækjandi Vatnajökulsþjóðgarður
Stjórnandi Þórður H. Ólafsson
Lengd verkefnis 1 ár
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Vatnajökulsþjóðgarður hefur um nokkurt skeið látið vinna að hönnun kennitákna sem nýst gætu við helstu aðalinnkomur inn í þjóðgarðinn, þar sem þjóðgarðsmörk eru um þjóðveg. Verkefnið er samvinnuverkefni Arkitektastofunnar Arkís og Snædísar Bjarnadóttur, skipulagsfræðings. Hugmyndin er að mynda vörðu sem aftur höfðar til gamallar íslenskrar hefðar að marka leið eða línu milli staða. Ein skilgreining á vörðu er: „ Varða er steinhraukur, sem er hlaðinn til vegvísunar um fjöll og óbyggðir, en einnig til að sýna landamæri, skil milli bújaðra eða benda á siglingaleiðir með ströndum fram og jafnvel vísa á fengsæl fiskimið. Oftast voru vörður hlaðnar úr steinum/grjóti, en einnig voru vörður gerðar úr mold eða hlaðnar upp úr moldarkögglum.“
Í þessu verkefni er um að ræða forsteyptar einingar, sem mynda keilu og síðan yrði tilsniðnar steinflögur lagðar í steinsteypu utan á forsteyptu eininguna. Merki (lógó) þjóðgarðsins, gert í vatnsútskorinni álplötu, sem síðan er dufthúðuð í lit (polyhúðuð) og dufthúðaðir álstafir mynda nafn þjóðgarðsins og annað sem koma má fyrir á þokkalega stórum flötum eininganna. Það ræðst eftir aðstæðum á hverjum stað hversu margar einingar yrðu settar niður, en þó aldrei færri en 3 og aldrei fleiri en 5. Einingarnar eru af þremur mismunandi stærðum.
Í þessu verkefni sumarið 2011 er fyrirhugað að koma slíkum vörðum fyrir á eftirtöldum stöðum:

  • Við innkomu í Skaftafell (998)
  • Á Sprengisandsleið sunnan Nýadals (F26)
  • Á leið að Kárahnjúkum á þjóðgarðsmörðum norðaustan Snæfells.

Niðurstöður

Þann 21. júní 2011 var fyrsta varðan afhjúpuð við hátíðlega athöfn í Snæfellsstofu. Varðan er staðsett á leið að Kárahnjúkum á þjóðgarðsmörðum norðaustan Snæfells. Sjá myndir frá athöfn.

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.