Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2011-001
Fjárhæð 1.550.000
Umsækjandi Fornleifastofnun Íslands ses
Stjórnandi Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Birna Lárusdóttir
Lengd verkefnis 1 ár
Viðhengi Lokaskýrsla.pdf Framvinduskýrsla.pdf
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Markmið verkefnisins er að afla þekkingar á menningarminjum innan Vatnajökulsþjóðgarðs, á þeim stöðum sem umferð um þjóðgarðinn er sem mest og fornleifar hvað fjölbreytilegastar.

Hér er um að ræða framtíðarsýn um víðtæka skráningu menningarminja í Vatnajökulsþjóðgarði og útgáfu um sama efni. Sá áfangi sem sótt er um styrk fyrir felst í skráningu á öllum þekktum minjastöðum á þeim tveimur svæðum innan þjóðgarðsins þar sem mannvistarleifar eru hvað þéttastar og fjöldi ferðamanna mestur, það er Skaftafell og Ásbyrgi. Samhliða er stefnt að kynningu og útgáfu smárita fyrir almenning um efnið. Í ritunum verður m.a. stiklað á stóru um sögu svæðanna og lífsbarátta þeirra sem bjuggu í návígi við jökulinn kynnt. Reynt verður að nýta niðurstöður til að dreifa ferðamannastraumi á fleiri staði en nú er raunin og að kynna samspil manns og jökuls í gegnum söguna. Áhersla verður lögð á að vinna verkefnið í nánu samstarfi við gestastofur á svæðinu.

Niðurstöður

Langhæst hlutfall minjastaða var að finna í gömlu heimatúnunum. Mikill fjöldi minja var skráður umhverfis bæjarstæðin þrjú: Hæðir, Sel og Bölta og ekki síður í hinu gamla Skaftafellstúni suðaustan við bæina þrjá sem enn standa, Gömlutúnum eins og þau nefnast. Gömlutún eru ein mikilvægasta minjaheildin sem enn er varðveitt í Skaftafelli, en þar stóð gamli Skaftafellsbærinn fram undir miðja 19. öld þegar jörðinni var skipt upp í þrennt og nýir bæir byggðust uppi í hæðunum norðvestar. Bæjarstæðin sjálf: Hæðir, Bölti og Sel eru mikilvægir minjastaðir en umhverfis þau í túnum og túnjöðrum er fjöldi minja; fyrst og fremst leifar útihúsa (fjárhúsa, hesthúsa, rafstöð) en einnig leifar af kálgörðum, réttum, kvíum og garðhleðslum af ýmsu tagi.

Náttúrulegur birkiskógur hefur vaxið gríðarlega í Skaftafelli á undanförnum áratugum, bæði vegna algerrar friðunar fyrir beit en einnig vegna hlýnandi veðurfars. Þennan gríðarlega vöxt má greina með því að skoða gamlar ljósmyndir en sömuleiðis má benda á að munur sést á rótfestu trjáa í tóftum nú og þegar starfsmenn Fornleifaverndar ríkisins fóru á staðinn árið 2004. Þessi uppgangur skógarins ógnar minjum á ýmsum stöðum og hefur sums staðar fært þær á kaf (ekki síst gamlar leiðir) eða umturnað landslagi svo að erfitt er að átta sig á örnefnum og landsháttum og þar með að finna minjastaðina. Stærsta einstaka minjasvæðið sem er í mikilli hættu vegna birkiskógarins eru Gömlutún ofan við tjaldsvæðið, en þar eru bæði gömul bæjarstæði og útihúsatóftir sýnilegar og sennilegt að fleiri minjar leynist undir sverði.

Hægt er að kynna sér niðurstöður verkefnisins nánar með því að lesa lokaskýrsluna en hana má nálgast hér.

Staðsetning á korti

Kortasíða

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.