Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2012
Fjárhæð 5.000.000
Umsækjandi Óbyggðasafn Íslands ehf
Stjórnandi Arna Björg Bjarnadóttir
Lengd verkefnis 1 ár
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Markmið Óbyggðasafnsins er að bjóða upp á fræðslu, viðburði og ferðir sem eiga það sameiginlegt að byggja á traustum fræðilegum grunni, byggja á sjálfbærni og náttúruvernd (ecotourism/sustainable tourism/slow travel) auk virkrar gæðastefnu. Á Óbyggðasafninu verða stundaðar rannsóknir, söfnun, skráning og varðveisla heimilda sem skapa grunn fyrir alla vöruflokkana. Auk þess sem stuðlað verður að samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og háskóla. Yfirlitssýning um óbyggðirnar og jaðarbyggðir þeirra verður komið fyrir jafnt innandyra sem utan á Egilsstöðum í Fljótsdal. Innandyra verður henni komið fyrir í gömlu fjósi, hlöðu, íbúðarhúsi og bakhýsi sem stendur á Egilsstöðum. Í fjósinu og á neðri hæð hlöðunnar verður komið fyrir fjölbreyttri upplifunarsýningu þar sem einblínt verður á menningarsögu óbyggðanna. Í fjósinu verða sérsýningar sem standa í 1-3 ár. Á sýningunum verður miðlað sögum útilegumanna, ferðamanna, vætta og annarra sem bjuggu á öræfum eða áttu leið þar um. Einnig verður útbúin veitingaaðstaða í gömlum gangnamannastíl. Í íbúðarhúsi, bakhýsi og utandyra verður einblínt á sögu þeirra sem bjuggu við jaðar óbyggðanna. Eldri kynslóðir núverandi fjölskyldu á Egilsstöðum hafa verið valdar til að “segja” þá sögu. Sama ættin hefur búið á jörðinni síðan í Kötlugosinu 1875 og þar hefur varðveist ótrúlegur fjöldi muna, handverks og fágætra mannvirkja sem endurspeglar lífsbaráttu og menningu í jaðri óbyggðanna. Utandyra gefst gestum kostur á að sækja mjólk í kaffið í yfirbyggða kalda uppsprettu, laumast í reykkofann og fá flís af reyktu hangilæri, skyggnast inn í hundrað ára gamalt grjóthlaðið smalabyrgi og virða fyrir sér heyvírinn í brattri hlíðinni. Hann var notaður til að þeyta heyinu af efstu hjöllum fjallsins niður á heimatún. Slíkir vírar þekkjast í Noregi en hvergi á Íslandi víðar en í Fljótsdal. Þá geta gestir tekið sér göngutúr að kláfnum yfir Jökulsá í Fljótdal og litið inn í hlaðið hesthús .Í eldhúsinu í gamla bænum gefst gestum kostur á að setjast niður með kaffibolla (t.d. uppáhellu með kaffibæti og kúmeni) og alíslenskt meðlæti.
Margir halda að sjálfbærni, nýsköpun og endurvinnsla séu nýjar af nálinni. Svo er aldeilis ekki. Lífshættir þeirra sem bjuggu í jaðarbyggðum endurspegla það glögglega. Ótrúlegt er að kynnast því hvernig fólk nýtti hugmyndaflug og handlagni við að nýta, endurnýta og skapa sjálft s.s. verkfæri, handverk og mat. Þessi grunnhugsun um nýtingu sem lengst af skipti íslensku þjóðina öllu máli til þess einfaldlega að komast af mun gesturinn fá að kynnast á sýningunni. Í samræmi við þetta verður rekin á safninu virk umhverfis- og sjálfbærnistefna.
Langtímamarkmið og framtíðarsýn Óbyggðasafnsins er að vera í farabroddi hvað varðar fræðslumiðlun um allt er varðar óbyggðir Íslands.

Niðurstöður

Ákveðið hefur verið að nota hugtakið Óbyggðasetur í stað hugtaksins Óbyggðasafn þar sem orðið setur lýsir betur starfseminni en safn.

Óbyggðasetur Íslands, kt. 470912-0300 hefur frá árslokum 2012 unnið að rannsókna- og fræðaverkefni sem mun skapa grunn fyrir sýningar setursins og aðra vöruflokka þess. Rannsókna- og fræðaverkefnið er fyrri hluti af enn stærra verkefni. Síðari hlutinn byggir á fyrri hlutanum og felur í sér uppsetningu sýninga sem og aðra miðlun um óbyggðir Íslands. Verkefninu í heild sinni má líkja við tré. Fyrri hluti þess eru ræturnar neðanjarðar og síðari hluti þess er sjálft tréð ofanjarðar. Fyrri hlutinn er því hinn fræðilegi grunnur sem síðari hluti verkefnisins byggir á.
Í þessari lokaskýrslu verður greint frá afrakstri fyrri hluta verkefnisins, þ.e.rannsókna- og fræðahlutanum. Markmið þess var í raun þríþætt
1. Að vinna ákveðnar rannsóknir og samantektir
2. Að kortleggja rannsóknir (og fræðsluefni)
3. Að safna og skrá heimildir
Rétt er að taka fram að þessir þrír þættir skarast oft á tíðum og byggja hver á öðrum. Verkefnið hefur vaxið og þróast frá því sem upphaflega var lagt upp með, enda er viðfangsefnið víðfeðmt. Dýpra hefur verið grafið í einstök viðfangsefni og styttra í önnur en fyrirhuguð notkun á efninu hefur þar ráðið för. Engu að síður var allan tímann unnið eftir þeim markmiðum sem í upphafi voru sett og koma fram hér að ofan. Afrakstur verkefnisins eru rannsóknir og samantektir, gríðarlega mikill heimildarbanki með munum, rituðum heimildum, ljósmyndum, gömlum hljóðupptökum og kvikmynduðu efni ásamt kvikmynduðum viðtölum sem tekin voru upp sérstaklega fyrir verkefnið. Allur þessi efniviður myndar faglegan grunn að fjölbreyttu miðlunar-, fræðslu- og kynningarstarfi setursins. Í verkefninu var lögð áhersla á að kvikmynda viðtöl við eldri einstaklinga sem búa yfir annars hverfandi vitneskju um þætti sem tengjast áherslusviðum setursins. Má þar nefna daglegt líf í afdölum, ferðalög í óbyggðum og smalamennsku.. Þannig hefur að einhverju leyti tekist að fanga vitneskju sem annars er hætta á að yrði öllum gleymd. Þá var mikið kapp lagt á að kortleggja og greina gamlar hljóðupptökur og kvikmyndað efni. Þetta eru samtíma heimildir sem oft eru vanmetnar en geta skipt sköpum við að hjálpa fólki að upplifa liðið andartak. Sjá framhald í viðhengi

Staðsetning á korti

Kortasíða

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.