Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2013-003
Fjárhæð 3.600.000
Umsækjandi Guðrún Gísladóttir
Stjórnandi Guðrún Gísladóttir
Lengd verkefnis 2 ár
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Í verkefninu verða rannsökuð með ítarlegum hætti breytingar á landgæðum, búsetuskilyrðum, eignarhaldi og verðgildi jarða, ítökum, ábúðarformi, íbúa- og búfjárfjölda frá landnámi til byrjun 20. aldar í Austur Skaftafellssýslu. Breytingar á fyrrgreindum þáttum verða skýrðar m.t.t. loftslagsbreytinga og öfga í náttúrunni s.s. eldgosa, jökulhlaupa og stórviðra sem hafa haft bein áhrif á byggð, íbúa og landgæði, þar með talið gróður og jarðveg. Þá verða samfélags- og efnahagslegar aðstæður í sýslunni settar í samhengi við það sem gerðist á sviði valdastofnana í landinu á sama tíma. Landfræðilegur stafrænn gagnagrunnur verður hannaður um öll gögn sem unnin verða úr ritheimildum, hvort sem þau ná til breytinga í náttúrunni eða samfélaginu. Með hjálp gagnagrunnsins verða gögn greind og túlkuð í tíma og rúmi og niðurstöður greininga birtar í formi korta og ritaðs máls.
Markmið er að greina og túlka með ítarlegum og þverfaglegum aðferðum sögu eignarhalds land og verðmæti, búsetu og landgæði, íbúafjölda og bústofn í Austur Skaftafellssýslu frá landnámi til byrjun 20. aldar. Hannaður verður stafrænn landfræðilegur gagnagrunnur þar sem upplýsingar úr ritheimildum, gögn um náttúrfar og einstaka atburði og öfga í náttúrunni verða vistaðar eftir staðsetningu (lengd og breidd), tíma og þeim lýst í töflum. Gagnagrunnurinn býður upp á að niðurstöður verði birtar á korti, gjarnan með gervitunglamynd eða loftmynd sem undilag.
Stefnt er að því að leita skýringa á eftirfarandi:
1. Hvernig þróaðist eignarhald, verðmæti jarða og búseta í Austur Skaftafellssýslu eftir svæðum og tímabilum?
2. Hvernig var landgæðum og búsetuskilyrðum háttað eftir tímabilum og svæðum?
Til að svara þessum spurningum er nauðsynlegt að nýta sögulegar ritheimildir og upplýsingar um
náttúrufar í tíma og rúmi. Gögnin ná til staðsetninga á punktformi (t.d. bæjarstæði, kirkjur),
útbreiðslu (t.d. gjóskulög, flóð, jöklar, skógar), lýsingar og magnbundin gögn (t.d. eignir kirkna, fjölda
nautgripa á tilteknum bæ, þykkt gjóskulaga, næringarefnabúskap jarðvegs, samsetningu gróðurs). Slík
þverfræðilega samsetning gagna býður upp á að hægt sé að tefla saman ólíkum upplýsingum og leita
skýringa og tengsla sem annars væri ekki hægt. Pólitísk þróun á Íslandi sem og samfélags- og
efnahagsleg þróun getur hafa haft áhrif í sýslunni og verður tekið tillit til þess. Hitt er þó ljóst að óvíða
í heiminum hafa íbúar þurft að búa í eins miklu nábýli við náttúröflin og á rannsóknasvæðinu og má
leiða að því líkur að náttúran hafi ýtt undir velmegun á tímum en einnig valdið verulegum búsifjum.
Ætlunin er að þessi rannsókn muni svara því.

 

Niðurstöður

Verkefnið er í vinnslu, búist er við niðurstöðum 2015.

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.