Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2013-005
Fjárhæð 6.000.000
Umsækjandi Minjasafn Austurlands
Stjórnandi Unnur Birna
Lengd verkefnis 2 ár
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Markmið verkefnisins eru margþætt. Í fyrsta lagi að fjalla með aðgengilegum og fræðandi hætti um eðli og lífshætti hreindýrsins og sess þess í sögu og menningu á Austurlandi. Í öðru lagi að varpa ljósi á rannsóknir á dýrunum hér á landi og þá vísindalegu þekkingu sem þær skapa sem og á þekkingu alþýðu sem til er um hreindýrin og reynslu manna og upplifun af þeim og miðla hvoru tveggja í formi fjölbreyttrar sýningar um efnið. Í þriðja lagi að gefa Íslendingum og erlendum ferðamönnum kost á að kynna sér þennan þátt í sambúð manns og náttúru hér á landi, þ.e. að fræðast um hreindýrin og sögu þeirra á Austurlandi, en hreindýrin lifa ekki villt í öðrum landshlutum hér á landi, enda þótt þau hafi, auk Austurlands, einnig verið flutt inn á Suðvesturlandi og Norðurlandi á 18. öld en þar dóu þau út.

Niðurstöður

Verkefnið fólst í gerð sýningar á um 80-100 fm2 rými í sýningarsal Minjasafns Austurlands í Safnahúsinu á Egilsstöðum. Frá hausti 2012 til ársloka 2013 var unnið að, fjármögnun, heimildaöflun, gerð sýningartexta, söfnun myndefnis og sýningarhönnun. Uppsetning sýningarumgjarðar í sýningarsal hófst í ársbyrjun 2014 og síðan var hafist handa við að setja upp sýningarspjöld og sýningarbúnað fyrir stafrænan miðlunarhluta sýningarinnar. Uppsetningu var endanlega lokið seinni partinn í maí 2015 og ber sýningin yfirskriftina „Hreindýrin á Austurlandi“. Hún er tileinkuð þeim Helga Valtýssyni rithöfundi og Eðvarði Sigurgeirssyni ljósmyndara og kvikmyndagerðarmanns, en með ferðum sínum á hreindýraslóðir í Kringilsárrana árin 1939 til 1944 opnuðu þeir augu Íslendinga fyrir tign og lífsbaráttu dýranna.

Á sýningunni eru hreindýrin í brennidepli. Varpað er ljósi á ýmsa þætti í sögu þeirra á Austurlandi, viðhorf til þeirra og hvernig þau hafa verið veidd og afurðirnar nýttar. Sameinaðir eru kraftar náttúru- og hugvísinda, listgreina, handverks og sagna- og veiðimenningar. Sýningin samanstendur af sýningartexta, myndefni á prenti og í stafrænu formi og ýmsum munum, gömlum og nýjum þar sem sýnd eru dæmi um handverk og hönnun úr hreindýraskinni og hreindýrahornum. Náttúrugripir eru til sýnis, nánar tiltekið hreindýrshorn og fleira af dýrunum og haustið 2015 mun sýningin eignast uppstoppað hreindýr, myndarlegan hornprúðan hreindýrstarf.

Verkefnið var unnið samstarfi við Náttúrustofu Austurlands og Umhverfisstofnun, á Egilsstöðum, auk þess sem margir meðal heimamanna og víðar lögðu henni lið með því að veita upplýsingar og ljá henni myndir og muni. Sýningin býr að ríkulegu og fjölbreyttu myndefni. Ljósmyndir eru rúmlega 300 ljósmyndir, úr fórum atvinnuljósmynda og áhugaljósmyndara, þær nýjustu frá árinu 2014 og elstu frá síðari hluta 18. aldar. Kvikmyndaefni á sýningunni er „Á hreindýraslóðum,“ hin einstæða hreindýramynd Eðvarðs Sigurgeirssonar frá 5. áratugnum, stutt fræðslumynd um hreindýrin á Austurlandi, sem gerð var á árinu 2015 sérstaklega fyrir þessa sýningu, af kvikmyndagerðinni. Tókatækni, og síðast en ekki síst er stutt teiknimynd, sem einnig var búin til sérstaklega fyrir sýninguna, sem byggir á frásögn í skáldsögunni Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness um hreinreið Bjarts í Sumarhúsum, sem er eitt þekktasta atriðið í íslenskum bókmenntum þar sem hreindýr koma við sögu. Hönnuður og leikstjóri er Lára Garðarsdóttir. Allt myndefni á sýningunni er fengið og sýnt með heimild eigenda og rétthafa. Sýningin var opnuð í júníbyrjun 2015 og mun standa uppi í Safnahúsinu á Egilsstöðum í allnokkur ár þar sem um grunnsýningu er að ræða. Sýningarhönnuður er Björn G. Björnsson.

Staðsetning á korti

Kortasíða

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.