Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2014-005
Fjárhæð 500.000
Umsækjandi Möguleikhúsið
Stjórnandi Pétur Eggerz
Lengd verkefnis 1 ár
Vefsíða verkefnis Sjá hér
Viðhengi eldklerkurEnska.pdf
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Unnin verður ný útgáfa á ensku af einleiknum Eldklerkurinn, sem til þessa hefur aðeins verið sýnd fyrir íslenska áhorfendur. Leikritið, sem fjallar um séra Jón Steingrímsson og Skaftárelda, var sett upp með stuðningi frá Vinum Vatnajökuls og frumsýnt í nóvember 2013. Síðan hefur verkið verið sýnt víða um land við góðar undirtektir. Verkið verður þýtt á ensku, en vonandi einnig síðar á önnur tungumál. Ljóst er að endurskrifa þarf handritið að miklu leyti til að það höfði til útlendinga, auk þess sem þýða þarf það á ensku. Þá þarf að æfa þessa nýju útgáfu sérstaklega og því ljóst að þetta krefst allnokkurrar vinnu. Eins og áður er það Pétur Eggerz sem leikur í sýningunni, leikstjóri er Sigrún Valbergsdóttir, en ensk þýðing er í höndum Neil McMahon.

Markmiðið með ensku útgáfunni er að kynna sögu Skaftárelda og séra Jóns Steingrímssonar fyrir erlendum ferðamönnum sem og að kynna verkið á erlendri grundu. Þannig vinnur verkefnið að aukinni fræðslu um náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs. Verkefninu er ætlað að auka áhuga erlendra gesta á svæðinu og hvetja þá til að kynna sér það. Afurð verkefnisins verður 45-60 mínútna útgáfa af leikverkinu Eldklerkinum sem leikin verður á ensku og unnt að fara með milli staða og sýna fyrir hópa.

Verkefnið verður kynnt fyrir ferðaþjónustuaðilum og öðrum sem taka á móti erlendum gestum er koma til landsins. Þar sem sýningin er létt í meðförum verður hægur vandi að fara með hana milli staða og hitta áhorfendur þar sem þeir eru hverju sinni. Þá standa einnig vonir til að hægt verði að sýna verkið erlendis.

 

Niðurstöður

Búið er að þýða handritið og hægt að nálgast það hér. Athuga ber þó að enn er verið að bæta það og er þetta ekki lokaútgáfa, en búist er við henni í febrúar 2016 og verður hægt að sjá leikritið í sumar.

 

Handritið var þýtt af Neil McMahon.

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.