Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2014-022
Fjárhæð 2.000.000
Umsækjandi Háskólinn á Hólum
Stjórnandi Skúli Skúlason
Lengd verkefnis 1 ár
Vefsíða verkefnis Sjá hér
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Á Breiðamerkursandi eru einstakar aðstæður til rannsókna á samspili ólífrænna og lífrænna þróunarferla í tíma og rúmi. Breiðamerkursandur er mótaður af jöklum og jökulvötnum og er saga sumra þessara ferla allvel þekkt. Framskrið og síðar hörfun jökla skildi eftir jökulgarða og lægðir og í breytilegum farvegum jökulkvísla sátu eftir tjarnir og vötn. Þróun vistkerfa endurspeglar aldur þeirra og landmótunarferli sem að baki liggja. Meginmarkmið verkefnisins er að lýsa umhverfi Breiðamerkursands, landmótun og lífríki með heildstæðum, þverfræðilegum hætti. Þær hröðu breytingar sem nú eiga sér stað vegna hnattrænna loftslagsbreytinga gefa tækifæri á heimsvísu til að fylgjast samhliða með kvikri mótun hins ólífræna umhverfis og hraðri þróun vistkerfa á þurrlendi og í vatni. Afurðir verkefnisins verða kort af landmótun og land- og vatnavistkerfum sandsins sem munu nýtast Vatnajökulsþjóðgarði og skipulagsyfirvöldum til ákvarðanatöku um vernd og nýtingu svæðisins. Fræðsluefni sem útskýrir ólík ferli á Breiðamerkursandi mun veita ferðamönnum innsýn í kvika náttúru svæðisins.

Breiðamerkursandur hefur verið á Náttúruminjaskrá síðan 1975 eða í fjörutíu ár 2015. Í Náttúruverndaráætlun 2004-2008 voru settar fram tillögur um verndun hans sem ekki náðu fram að ganga. Árið 2011 voru svo settar fram fyrstu hugmyndir af hálfu þáverandi umhverfisráðherra um innlimun svæðisins í Vatnajökulsþjóðgarð. Verndargildi svæðisins er að líkindum mjög hátt og er því mikilvægt að fá heildstæða yfirsýn yfir náttúrufar þess. Stærsti hluti sandsins er þjóðlenda og því á ábyrgð hins opinbera. Fjölgun ferðamanna bæði að sumri og vetri hefur leitt til aukinnar aðsóknar á svæðið og allt bendir til þess að sú þróun haldi áfram næstu árin. Því verður æ brýnna að taka ákvarðanir um fyrirkomulag bæði verndunar og nýtingar Breiðamerkursands en til þess skortir upplýsingar, sérstaklega þó um lífríki svæðisins og þau ólíku vistkerfi sem þar hafa þróast á undraskömmum tíma frá því að jökull tók að hopa fyrir rétt um 100 árum.

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.