Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2014-020
Fjárhæð 450.000
Umsækjandi Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Stjórnandi Birgir U. Ásgeirsson
Lengd verkefnis 1 ár
Vefsíða verkefnis Sjá hér
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Nýlega var NaNO-gagnabanka komið á fót með kennsluefni og -hugmyndum fyrir kennara. Viðfangsefni gagnabankans eiga það sameiginlegt að flokkast undir náttúruvísindi og tækni 21. aldar þar sem litið er sérstaklega til framtíðar (sjá nano.natturutorg.is). Gagnabankinn er öllum opinn án endurgjalds.

Stefnan er að Vatnajökulsþjóðgarður verði eitt af þverfaglegum viðfangsefnum gagnabankans. Þar munu kennarar geta nálgast kennsluhugmyndir, -efni og ítarefni um náttúrufyrirbæri innan þjóðgarðsins. Má þar m.a. nefna efni tengt jöklarannsóknum, loftslagsbreytingum, samspili manns og náttúru, eldfjallafræðum, eðlis- og jarðfræði jökla og lífbreytileika. Þannig geta kennarar nálgast þjóðgarðinn heildstætt sem þverfaglegt viðfangsefni í kennslu sem teygir sig í fjölmargar af hinum hefðbundu námsgreinum náttúruvísinda. Með því að nálgast efnið með þessum hætti er stuðlað að auknum áhuga nemenda á þjóðgarðinum og náttúruvísindum.

Almennt markmið verkefnisins er að auka áhuga nemenda á náttúruvísindum. Þetta verður gert með því að semja efni um viðfangsefni þjóðgarðsins sem tengjast 21. öld, nútíð og framtíð. Námsefnið verður unnið þannig að það nýtist ólíkum námsgreinum og stuðli að samþættingu þeirra. Það er í eðli sínu þvert á greinar, bóklegar og verklegar. Mörg viðfangsefnanna teygja sig einnig yfir í samfélagsgreinar og samspil vísinda, tækni, náttúru og samfélags.

Markmið er að semja efni sem spannar í heildina 18-24 kennslustundir. Efninu verður gert skil með almennri lýsingu, stuttum myndböndum að viðbættu lesefni á íslensku, hugmyndum um notkun efnisins við mismunandi aðstæður og fyrir mismunandi aldurshópa, möguleikum um kennsluskipulag og hugmyndum að nemendaverkefnum. Efnið gerir kennurum og nemendum kleift að nota það á ýmsan hátt – t.d. sem grunnefni, val fyrir nemendur, í verkefnavinnu og í þágu samþættingar. Viðfangsefnin eru þess eðlis að myndræn framsetning er nauðsynleg til að koma þeim fyllilega til skila. Til að mæta því er ætlunin að hafa efnið ríkt af myndefni, bæði ljósmyndum og myndskeiðum til að vekja áhuga nemenda og gefa þeim innsýn í tengsl við raunveruleikann.

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.