Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2015-012
Fjárhæð 2.000.000
Umsækjandi Sjónhending ehf
Stjórnandi Gunnlaugur Þór Pálsson
Lengd verkefnis
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Grunnhugmyndin er að gera 90 mínútna heimildarmynd, þar sem slegist er í för með jöklahópum vísindamanna og farið í rannsóknaleiðangra með þeim. Helgi Björnsson jöklafræðingur er einn af aðalviðmælendum myndarinnar og hann mun einnig prófarkalesa jöklatexta. Farið verður í nokkra vísindaleiðangra, en sá sérstakasti er örugglega til Jökulsárlóns við Breiðamerkurjökul þar sem komið er á einstaka jöklarannsóknastöð í alfara leið við þjóðveg 1. Rannsóknirnar sem fylgst verður með er í grunninn samnefnari á öllum grundvallarvísindum sem nútímajöklafræðin spannar. Jökulsárlón og Breiðamerkurjökull reynist vera einstakur rannsóknarvettvangur þegar skoðuð eru nýjustu rannsóknagögn Helga Björnssonar en þar má kanna mörg þau ferli sem nú er brýnast að auka skilning á svo sem kelfingu jökla í sjó fram og áhrif á hækkandi sjávarstöðu. Þau ferli ráða miklu um framtíð jökla Grænlands, Svalbarða og Suðurskautslandsins en óvíða er auðveldara að rannsaka þau en þar sem Breiðamerkurjökull fellur í Jökulsárlón, sem er syðsti endi 25 km langs fjarðar sem væntanlega opnast á næstu áratugum þegar jökullinn hörfar við hlýnandi veðurfar og aukið innstreymi hlýs sjávar. Við hop jökulsins kemur í ljós nýtt land mótað af bráðnunni, þ.e. Breiðamerkursandur. 

Meginmarkmið rannsóknanna er að lýsa umhverfi Breiðamerkursands, landmótun og lífríki. Þær hröðu breytingar sem nú eiga sér stað vegna hnattrænna loftslagsbreytinga gefa tækifæri á heimsvísu til að fylgjast samhliða með kvikri mótun hins ólífræna umhverfis og hraðri þróun ísaltra vistkerfa, þurrlendis vistkerfa og vistkerfa í fersku vatni og útskýrir ólík ferli við Breiðamerkurjökul, sem mun veita okkur innsýn og aukinn skilning í kvika náttúru svæðisins. Hoffellsjökull í Hornafirði, sambúð hans við bændur og búalið, hvernig er lífsbaráttan í þessu mikla nábýli? Skaftárkatlar í vestanverðum Vatnajökli, eitt öflugasta háhitasvæði Íslands. Með rannsóknum á samspili elds og íss á Íslandi fæst aukinn skilningur á sambúð íss og eldvirkni á öðrum hnöttum, t.d. Mars og Ío, eitt tungla Júpíters en þessar rannsóknir hafa verið starfsvettvangur Þorsteins Þorsteinssonar jöklafræðings og NASA undanfarin ár. 

Kvikmyndin er fyrst og fremst hugsuð til almennra sýninga í sjónvarpi, kvikmyndahúsum og kvikmyndahátíðum, ásamt DVD, Blu-ray og VOD-kerfum gagnaveita.

Verkefnið eflir kynningar- og fræðslustarf til almennings innanlands sem utan um náttúru, menningu og sögu byggðarlaga innan Vatnajökulsþjóðgarðs og nærliggjandi byggða. Eitt af meginmarkmiðum með gerð myndarinnar er að vekja landsmenn og umheiminn til umhugsunar um mikilvægi þess að vernda verðmæt landsvæði á Íslandi sem varðveitt verða um ókomna framtíð, jafnt íslendingum sem öðrum til yndis.

Niðurstöður

Heimildarkvikmyndin JÖKLALAND -veröld breytinga (vinnutitill: Ísafold -land íss og jökla) er nú lokið. Myndin greinir frá jöklum Íslands og jöklarannsóknum undir styrkri handleiðslu Helga Björnssonar jöklafræðings. Í lokakafla myndarinnar er styklað á stóru varðandi loftslagsvá heimsins vegna losunar gróðurhúsa lofttegunda í andrúmsloft og sjó.

Myndin verður frumsýnd í bíó, nú í sumar og RÚV hefur keypt sýningarétt á myndinni og munu líklega sýna hana fljótlega með haustinu. Auk þess er myndin í þýðingu á amk. tvö erlend tungumál.

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.