Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2015-024
Fjárhæð 1.000.000
Umsækjandi Kirkjubæjarstofa
Stjórnandi Vera Roth
Lengd verkefnis
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Verkefnið er hluti af stóru heildarverkefni um rafræna skráningu og hnitsetningu á þjóðleiðum, fornum ferðaleiðum og örnefnum í Skaftárhreppi. Stefnt er að markvissri leit að heimildum sem innihalda fornar leiðalýsingar í héraðinu og samantekt ferðaleiða í Skaftárhreppi um og fyrir aldamótin 1900. Leitað verður eftir skráðum heimildum sem innihalda sýslu- og ferðalýsingar. Örnefnaskrár verða yfirfarnar m.t.t. gatna eða lýsinga á ferðaleiðum. Leitað verður eftir upplýsingum hjá staðkunnugum heimildarmönnum um ferðaleiðir sem þekktar eru í dag. Fornar ferðaleiðir sem eru kortlagðar á Herforingjaráðs- og Atlaskortum LMÍ verða yfirfarnar og bornar saman innbyrðis og við upplýsingar sem fengist hafa úr öðrum heimildum. Samantekt/skýrsla verður unnin yfir helstu ferðaleiðir í Skaftárhreppi, um aldamótin 1900.

Markmið verkefnisins er öflun upplýsinga um þjóðleiðir og fyrrum ferðaleiðir í Skaftárhreppi. Lífsklukkan tifar áfram og af þeim sökum er nauðsynlegt að hitta sem flesta heimildarmenn sem enn eru til staðar í þeim tilgangi að safna saman og staðsetja upplýsingar sem líklegar eru til að glatast með nýrri kynslóð. Verkefnið er mikilvægt í því samhengi að með því verður bjargað frá glötun miklum menningarverðmætum, sem m.a. felast í þekkingu á staðsetningu fornra ferðaleiða og örnefna, sem eru samtvinnuð lífsbaráttu fólks á fyrri öldum. Sagnir eru um margar gamlar þjóðleiðir og götur í Skaftárhreppi og enn má sjá merki um sumar þeirra í landinu. Aðrar hafa horfið af völdum náttúruaflanna eða mannvirkja en þeirra er getið í rituðum heimildum og örnefni benda til þeirra. Verkefninu er ætlað að efla þekkingu á þessum menningararfi þjóðarinnar og gera öllum kleift að nýta sér upplýsingarnar á aðgengilegan hátt. Landmælingar Íslands, Árnastofnum og aðrar viðeigandi stofnanir munu varðveita afurð verkefnisins.

Verkefnið verður mikilvægur þáttur í að efla upplifun ferðamanna sem ferðast um þjóðgarðinn og nærsvæði hans í Skaftárhreppi. Sögnum um fornar ferðaleiðir fylgir sterk innsýn í lífsháttu fyrri tíma og nothæfar leiðir verða kortlagðar og nýttar á ný sem göngu- og reiðleiðir. Sú þekking sem verður til með verkefninu glæðir land og náttúru lífi og lýsir búsetusögu og lífsbaráttu liðinna kynslóða.

Verkefnið mun m.a. nýtast við margvísleg rannsóknarverkefni, gerð fræðsluefnis, við menningar- og sögutengda ferðaþjónustu, nemendaverkefni og margt fl. 

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.