Vinir Vatnajökuls
Um verkefnið
Ár 2015-022
Fjárhæð 1.300.000
Umsækjandi Jöklarannsóknafélag Íslands
Stjórnandi Magnús Tumi Guðmundsson
Lengd verkefnis
Fyrra verkefni Næsta verkefni

Markmið

Um er að ræða Vorferð Jöklarannsóknarfélgsins 2016 og stefnt er að því að styrkja fimm einstaklinga til að fara í ferðina sem að meirihluta væru framhaldsnemar í jökla- og jarðvísindum, en einnig yrði gert ráð fyrir að pláss væri fyrir listamann og/eða atvinnuljósmyndara/blaðamann /myndatökumann. Slík þátttaka myndi auka framboð á fræðusluefni um jökulinn og vekja athygli á náttúru hans. Vorferðirnar hafa oft vakið verulega athygli og töluvert um þær fjallað í fjölmiðlum í gegnum árin. Verkefnið ætti að auka við slíka jákvæða umfjöllun um hjarta Vatnajökulsþjóðgarðs. Einnig hafa niðurstöður sumra rannsóknarvekefna vakið mikla athygli þegar þær hafa verið birtar. Sama getur átt við um þátttöku blaða- og listamanna, innlendra og erlendra.

Markmiðið er að:

  • Auka þekkingu almennings á náttúru og sögu þjóðgarðsins. Þetta markmið næst með birtingu niðurstaðna úr rannsóknarverkefnum og frásögnum blaða- og fréttamanna sem taka þátt.
  • Auka samspil útivistar, menningar og Vatnajökulsþjóðgarðsins. Að þessu markmiði stuðlar samvinna vísinda- og áhugamanna í ferðunum auk þátttöku listamanna.
  • Að stuðla að auknum skilningi umheimsins á mikilvægi Vatnajökulsþjóðgarðs og einstakri náttúru hans á heimsvísu.

Vorferðir Jöklarannsóknafélags Íslands á Vatnajökul hafa verið farnar árlega síðan 1953, eða í 62 ár og eru mikilvægur þáttur í rannsóknum á Vatnajökli. Í þessum ferðum hefur verulegur hluti rannsókna á jöklinum farið fram. Grunnur þeirrar þekkingar sem byggt er á um hinar virku eldstöðvar og jarðhitasvæði sem skapa Vatnajökli sérstöðu á heimsvísu er tilkominn vegna mælinganna í Vorferðum Jöklarannsóknafélagsins. Vorferðir hafa því fyrir löngu markað sér sess sem mikilvægur þáttur í rannsóknum á náttúru Íslands, sér í lagi hvað varðar Vatnajökul og eldvirkni á Íslandi.

Afkoma jökulsins í Grímsvötnum og víðar, hluti af kortlagningu botnsins og svo til allar rannsóknir á jarðhita og eldvirkni í Grímsvötnum, Kverkfjöllum og víðar hafa verið unnar í vorferðunum. Ferðirnar eru sérstæðar fyrir þær sakir að þær hafa alla tíð að miklu leyti byggst á þátttöku sjálfboðaliða, en í félaginu hefur alla tíð starfað harðsnúinn hópur ferðafólks. Uppbygging aðstöðu fyrir rannsóknir, með því að koma upp þremur skálum á Grímsfjalli, 1957, 1987 og 1994, hefur farið fram í ferðunum og verulegur hluti rannsóknaborana í jökulinn einnig.

Þegar vorferðir hófust, með samstarfi Jóns Eyþórssonar og Sigurðar Þórarinssonar við hópa fjalla- og ferðamanna, voru aðstæður frumstæðar og ferðir oft erfiðar. Hafst var við í tjöldum og siglingatækni á borð við þá sem nú er til (GPS) var ekki komin til sögunnar. Fram á 8. áratug 20. aldar voru þátttakendur yfirleitt 10-12 talsins. Þegar kom fram á 9. áratuginn jókst þátttaka í ferðunum með aukinni aðstöðu á Grímsfjalli og víðar. Einnig skipti myndarlegur stuðningur Landsvirkjunar miklu máli en fyrirtækið lagði til öflugan snjóbíl með bílstjóra í áratugi. Landsvirkjun styður félagið ennþá og sama gildir um Vegagerðina, en báðir aðilar eiga hagsmuna að gæta vegna vöktunar á náttúruvá.

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.