Vinir Vatnajökuls

Saga Vinanna

Vinir Vatnajökuls - hollvinasamtök Vatnajökulsþjóðgarðs, eru frjáls félagasamtök  sem voru stofnuð þann 21. júní, 2009. Markmið samtakanna er m.a. að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslustarf er stuðli að því að sem flestir geti notið þeirrar náttúru og sögu sem þjóðgarðurinn hefur að geyma.

Þegar ljóst varð að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs yrði að veruleika kviknaði áhugi meðal ýmissa aðila í aðliggjandi sveitarfélögum um stofnun félags og styrktarsjóðs til stuðnings góðum málefnum er vörðuðu þjóðgarðinn.  

Undirbúningsvinna hófst sumarið 2007 og seint á því ári var skipaður átta manna samstarfshópur fulltrúa sveitarfélaga og ferðamálasamtaka frá svæðunum fjórum sem þjóðgarðinum er skipt í. Verkefni þessa hóps var að undirbúa stofnun hollvinasamtaka Vatnajökulsþjóðgarðs.

Í samstarfshópnum sátu fyrir norðursvæðið Friðrik Sigurðsson og Pétur Snæbjörnsson, fyrir austursvæðið Magnhildur Björnsdóttir og Skúli Björn Gunnarsson, fyrir suðursvæðið Rannveig Einarsdóttir og Þorvarður Árnason og fyrir vestursvæðið Friðrik Pálsson og Bjarni Daníelsson.

Innan hópsins var skipaður þriggja manna framkvæmdahópur til að leiða starfið. Í honum sátu Bjarni Daníelsson, formaður, Friðrik Pálsson og Friðrik Sigurðsson. Verkefnisstjóri var Margrét Sveinbjörnsdóttir hjá AP-Almannatengslum. Haukur Hauksson hjá Hátt og snjallt, tók við af henni í apríl 2009 og vann  að verkefnum fyrir samtökin þangað til að framkvæmdastjóri þeirra tók við í september 2009.

Frá því að hugmyndin að stofnun samtakanna kviknaði hefur fjöldi einstaklinga, fyrirtækja, stofnana og félaga lagt hönd á plóg í undirbúningsvinnunni.  Vinir Vatnajökuls eru þeim öllum þakklátir fyrir þeirra framlag.

Markmið samtakanna er að afla fjár til að styrkja rannsóknir, kynningar- og fræðslu á þjóðgarðssvæðinu og stuðla þannig að því að sem flestir geti notið náttúru og sögu Vatnajökulsþjóðgarðs.